Hver erum við

Ju jitsufélag Reykjavíkur (JJFR) var stofnað árið 1997 og hefur verið aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur frá árinu 1999. Markmið félagsins er að stuðla að útbreiðslu hefðbundins ju jitsu, sjálfsvarnaríþróttar sem á uppruna sinn að rekja til Japans og er talin ein elsta íþrótt sinnar tegundar. Af hennar meiði hafa meðal annars sprottið sjálfsvarnarlist eins og Aikido og Hapkido, og bardagaíþróttir eins og Judo og Brazilian jiu jitsu. Ekki er keppt í hefðbundnu ju jitsu af því tagi sem JJR leggur stund á.

JJR er aðili að heimssamtökum ju jitsufélaga, Shogun Ju-Jitsu International (SJJI), en meistari skólans er Sensei Simon Rimington stofnandi samtakanna. Heimssamtökin leggja áherslu á skipulagða þjálfun sem tekur mið af vandaðri alþjóðlegri þjálfunaráætlun, þar sem iðkandinn byggir færni sína á breiðum grunni sjálfsvarnartækni, eins og lásum, köstum og hnitmiðaðri spark- og höggtækni. Þjálfunaráætlunin leggur jafnframt grunn að gráðunarkerfi samtakanna en mismunandi litur belta gefa til kynna stöðu nemenda á hverjum tíma.

Allir geta stundað hefðbundið ju jitsu, óháð líkamlegu ásigkomulagi; ungir sem aldnir, konur og karlar, enda er ástundun þessarar íþróttar á forsendum iðkandans, sem fer í gegnum þjálfunaráætlun á eigin hraða.

Kennsla barna og unglinga hjá JJR hófst árið 1999 og eru æfingar ætlaðar fyrir börn frá 8 ára aldri. Börn og unglingar fylgja sérstakri þjálfunaráætlun sem tekur mið af líkamsburði þeirra og andlegum þroska. Barnaæfingar er eðlilega sambland náms og leikja. Börnin læra helstu lása og tök til að verja sig, læra aga og sjálfstjórn og læra að bera virðingu hvert fyrir öðru. Á milli tæknilegra æfinga fá þau óspart tækifæri til útrásar í leikjum og ærslagangi.

Hjá unglingum er auk hefðbundinna æfinga, lögð áhersla á að byggja upp sjálfstraust einstaklingsins og fá þau til að huga að þeim hættum sem þau geta lent í á lífsleiðinni. Lögð er áhersla á að sjálfsvörn er aðeins notuð í neyðartilvikum og að slagsmál leiða aldrei til lausna.

Fullorðnir fylgja þjálfunaráætlun SJJI sem ætluð er fólki frá 16 ára aldri. Hér er lögð meiri áhersla á fjölbreytt köst og flókna lása til þess að ná stjórn á andstæðingnum. Hér verða iðkendur að tileinka sér ákveðna þekkingu á líffæra- og lífeðlisfræði sem tengjast íþróttinni og helstu atriðum laga og reglna um nauðvörn og valdbeitingu. Í þessum hópi eru iðkendur sem fyrr segir frá 16 ára aldri og um og yfir sjötugt. Fólk aldrei of gamalt til að byrja að æfa ju jitsu.

Yfirkennari félagsins er Magnús Ásbjörnsson 6. dan. Auk hans sjá reyndir svartbeltingar um kennslu bæði barna og fullorðinna. Kennarar JJFR hafa haldið fjölda námskeiða fyrir starfsfólk stofnana og fyrirtækja sem sinna lög- og heilsugæslu, öryggisvörslu, félagsþjónustu og menntun barna og unglinga. Námskeið eru ávalt sniðin að þörfum þeirra sem leita til kennara félagsins hverju sinni.